Ekki frekari niðurskurður á leikskólum

Staða leikskólamála í Kópavogi var rædd á haustfundi SAMLEIK, samtaka foreldra leikskólabarna í Kópavogi, sem haldinn var þriðjudaginn 4. október sl. Fjallað var um eftirlitshlutverk Kópavogsbæjar við að tryggja börnum sambærilega þjónustu, t.d. varðandi gæði matar, aðbúnaðar og faglegs starfs. Þá var rætt um hvað Kópavogsbær gæti gert til að sporna gegn starfsmannaveltu á leikskólum og hvort komið væri að þolmörkum í leikskólastarfinu. Voru ræðumenn sammála um að svo væri.

Framsögumenn á fundinum voru Sigurlaug Bjarnadóttir og Gerður Guðmundsdóttir, leikskólaráðgjafar frá leikskóladeild Kópavogsbæjar, og Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri á Urðarhól. Þær fluttu erindi um stöðu leikskólamála en að þeim loknum voru pallborðsumræður þar sem þátt tóku Arnþór Sigurðsson, formaður leikskólanefndar Kópavogs, og Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna, ásamt framsögumönnum.
 
Kostnaður vegna leikskólamála í Kópavogi er um 2,4 milljarðar króna á ári. Á 22 leikskólum bæjarins eru yfir 2.000 börn og um 500 starfsmenn. Ætla má að um 4.000 foreldrar hafi beinna hagsmuna að gæta af dvöl og kennslu barna sinna í leikskólunum.

Fram kom að flest börn væru í 8 til 9 klukkustundir á leikskólum á dag og að álag á starfsfólk leikskólanna væri því mikið. Ef koma ætti til frekari niðurskurðar í þessum málaflokki yrði það ekki gert nema með fækkun dvalarstunda og endurskoðun lágmarksaldurs barna á leikskólum. Arnþór Sigurðsson, formaður leikskólanefndar, greindi frá því að ekki yrði frekari niðurskurður í leikskólamálum Kópavogs á næsta ári. Áherslan yrði hins vegar á að nýta enn betur það fjármagn sem fer til leikskóla í dag. Sagði Arnþór að það væri stefna meirihlutans í bænum að standa ætti vörð um leikskólana og gera allt sem hægt er til að efla starfið á þeim.

Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna, kallaði eftir því að farið yrði í vinnu til að minnka starfsmannaveltu á leikskólunum. Taldi hann einnig mikilvægt verkefni að skoða uppbyggingu náms leikskólakennara með það að markmiði að opna á styttri námsbrautir.
og  starfsþjálfun og starfsmöguleika inni á leikskólunum. Hann ræddi jafnframt um mikilvægi næringar og að leikskólarnir byðu upp á hollan og góðan mat í samræmi við leiðbeiningar um matseðla sem að bærinn hefði útbúið fyrir nokkrum misserum síðan.

Samtök foreldra leikskólabarna í Kópavogi voru stofnuð þann 1. mars sl. til að koma á fót sameiginlegum vettvangi fyrir samræður og skoðanaskipti um leikskólamál. Stjórn félagsins er skipuð sjö foreldrum leikskólabarna. Félagið er með Facebook-síðu og vefsíðu (www.samleik.yolasite.com) til að miðla upplýsingum um starf þess, störf í leikskólanefnd bæjarins og önnur mál sem snerta leikskólana. Á vefsíðunni má m.a. að finna allar fyrirspurnir fulltrúa foreldra til leikskólanefndar og svör bæjarins við þeim. Foreldrar eru hvattir til að kynna sér starfsemi félagsins og senda stjórninni ábendingar í tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir: Friðrik Friðriksson, formaður SAMLEIK, í síma 824 2303